Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Tugir einstaklinga nýta sér þjónustu Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
föstudaginn 13. ágúst 2021 kl. 15:01

Tugir einstaklinga nýta sér þjónustu Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum

Skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins fyrir fólk sem notar vímuefni í æð

„Þegar einhver nákominn þér fer að nota, þá viltu að sá aðili komi til Frú Ragnheiðar,“
segir Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum.

Verkefnið Frú Ragnheiður hefur nú verið starfrækt á Suðurnesjum frá 4. júní 2020. Það gengur út á að aðstoða einstaklinga sem nota vímuefni í æð og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem markmið þess er að fækka dauðsföllum í þeim hópi. Frú Ragnheiður er verkefni Rauða krossins og var sett á laggirnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2009. Í fyrra nýttu sautján einstaklingar sér úrræðið á Suðurnesjum þar sem heimsóknirnar voru 138 talsins en yngsti skjólstæðingurinn var 21 árs. Tilgangur verkefnisins er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, svo sem þeirra sem eru heimilislausir og þeirra sem nota vímuefni í æð, bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskipta, lágmarka þannig óafturkræfan skaða og útbreiðslu HIV og lifrarbólgu C. Þjónustan felur m.a. í sér aðhlynningu sára, sýklalyfjameðferð, umbúðaskipti, almenna heilsufarsskoðun og ráðgjöf. Að auki fá skjólstæðingar hlý föt, næringu, svefnpoka, tjalddýnur og sálrænan stuðning.

Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir er verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum en með henni starfa sjálfboðaliðar Rauða krossins. Að auki er oftast hjúkrunarfræðingur á vakt sem og læknir, ef nánari aðstoð vantar. Hún segir starf þeirra margþætt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar einhver nákominn þér fer að nota, þá viltu að sá aðili komi til Frú Ragnheiðar. Við aðstoðum fólk með skaðaminnkandi samtali, spáum í því hvort það kunni að nota búnaðinn, meðhöndla efnið, finna æðar og fleira. Í raun og veru þá er mitt starf að vera þeirra málsvari og styðja við þau. Ég tengi þau við ýmsa þjónustu, svo sem aðra heilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf en þau hafa oft ekki aðgengi að velferðarþjónustu og falla á milli í kerfinu. Ég hef farið með þeim til presta og lækna. Við erum með samning við HSS þar sem við getum sent myndir af sýkingu og fengið uppáskrifað sýklalyf ef á þarf að halda. Læknirinn metur það og í einstaka tilfellum þarf að fara upp á spítala og þá hef ég oft fylgt þeim því þau mæta svolitlu mótlæti,“ segir Jóhanna. Fordómarnir gagnvart þessum hópi, bæði innan heilbrigðiskerfisins og utan þess, gerir það að verkum að hennar sögn að fólkið leitar sér síður hjálpar. „Það er fullt af góðum læknum og hjúkrunarfræðingum þarna úti sem sýna fólki skilning en það er líka fullt af fólki með fordóma. Þegar einstaklingur mætir til læknis er hann skráður sem notandi vímuefna og fær því oft ekki þau lyf sem hann þarf á að halda, þrátt fyrir að vera orðinn edrú,“ segir hún og bætir við að dæmi séu um að einstaklingar á leið í aðgerð, sem hafi áður notað vímuefni, hafi oft þurft að berjast fyrir því að fá verkjastillandi lyf. „Það kemur alls staðar upp í kerfinu að einstaklingur hafi misnotað lyf og þarf því, sögu sinnar vegna, að hitta skilningsríkan lækni. Frú Ragnheiður hefur hjálpað til þegar læknar setja fólk í skömmtun, því þannig er auðvelt að koma í veg fyrir misnotkun.“

Mannréttindi fólks í viðkvæmri stöðu

Frú Ragnheiður er færanlegt úrræði sem felur það í sér að aðstoðin mætir þangað sem óskað er eftir henni í nærumhverfi skjólstæðinganna. „Fólk getur sent okkur skilaboð á Facebook eða hringt í okkur og við mætum því þar sem það vill hitta okkur. Eins og er erum við á ferðinni tvisvar í viku en við erum verkefni sem er sífellt að þróast og við aðlögum okkur að þessum hópi og aðstæðum í samfélaginu,“ segir hún og bætir því við að Frú Ragnheiður sé alltaf til í að mæta og aðstoða nýtt fólk. „Ég vil svo gjarnan sjá þennan hóp leita til okkar. Þessir einstaklingar eiga sín mannréttindi og við viljum eiga samtalið við þá. Fólk er ekki að nota vímuefni vegna þess að Frú Ragnheiður er á staðnum.“

Með því að veita jaðarsettum einstaklingum gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og nálaskiptum, ásamt almennri fræðslu um skaðaminnkun á vettvangi, telur Frú Ragnheiður að hægt sé með einföldum og ódýrum hætti að draga verulega úr líkum á að einstaklingar þurfi í framtíðinni á kostnaðarsamri heilbrigðisþjónustu að halda. Frú Ragnheiður tekur jafnframt við notuðum sprautubúnaði til förgunar í samstarfi við Landspítalann og árið 2020 fargaði Frú Ragnheiður á höfuðborgarsvæðinu 3.880 lítrum af notuðum sprautubúnaði.

Alls konar fólk notar vímuefni í æð

Jóhanna segir mikilvægt að einstaklingar viti af úrræðinu og að samstarfið við sveitarfélögin skipti miklu máli. „Það er mikilvægt að þau þekki verkefnið okkar, geti vísað fólki til okkar og við til þeirra. Ég hef nú þegar fundað með Suðurnesjabæ sem gekk mjög vel en hef beðið í ár eftir fundi með Reykjanesbæ og Grindavíkurbær segist ekki vera með nein vandamál – en notendurnir eru þarna úti, það vitum við.“

Aðspurð hverjir það séu sem leiti til þeirra segir Jóhanna það vera alls konar einstaklinga. „Þetta er bara fólk, jafnt misjafnt eins og við erum mörg. Ég held að hópur fólks þarna úti sé hrætt við að koma út af því við erum í svo litlu samfélagi en það er hundrað prósent trúnaður hjá okkur,“ segir hún. Í flestum tilfellum er þó um að ræða einstaklinga með áfallasögu að baki. „Þetta er líffræðilegt, erfðafræðilegt og vegna umhverfsins. Þú veist aldrei hvað einstaklingur hefur upplifað en oft opna þau á áföll. Konur eru mun berskjaldaðari en karlmenn og í viðkvæmari hópi. Þær eru oft misnotaðar og lenda í alls konar ofbeldi, koma jafnvel úr ofbeldissamböndum og eru seldar. Við höfum traust þeirra skjólstæðinga sem til okkar leita og erum ein af fáum sem þekkjum málsvarastarfið og höfum sérþekkingu á stöðu þessara einstaklinga. Það þýðir ekkert að vera með þessa bann- og refsistefnu heldur verður að fara að gera eitthvað til þess að mæta þessum einstaklingum.“

Á Suðurnesjum er þjónusta Frú Ragnheiður í boði á mánudögum og fimmtudögum klukkan 20:00–22:00. Síminn þeirra er 783-4747.